Raddir nemenda – Hvað segir fólkið okkar um Hringsjá?
Umsagnir


Námið hentar einnig þeim sem hafa litla grunnmenntun eða sértæka námserfiðleika. Stefnt er að því að þeir sem útskrifast frá Hringsjá séu færir um að takast á við nám í almennum framhaldsskólum og finna störf við hæfi á almennum vinnumarkaði.
Ingi Sævar Ingason kynntist Hringsjá í endurhæfingarprógrammi fyrir óvirka fíkla sem heitir Grettistak. Eitt og annað hafði gengið á í lífi hans. Í Grettistaki koma skólar og kynna það sem þeir hafa upp á að bjóða. Einn þessara skóla er Hringsjá. Á kynningu skólans voru nemendur með í för og kynntu skólann sem Ingi Sævar hafði aldrei áður heyrt nefndan og vissi ekki að væri til.
„Eitt af því sem mér fannst mjög heillandi við þennan skóla var að í kynningunni kom fram að á morgnana væri alltaf frír morgunmatur á staðnum. Það fannst mér alveg geggjað. Frábær sölupunktur. En þarna var líka sagt frá því hvernig starfsfólkið væri og út á hvað námið gengi,“ segir Ingi Sævar.
Sniðið að hverjum og einum
Hringsjá gengur mikið út á að mæta nemandanum eins og hann er. Engu máli skiptir hvaðan hann kemur, námið er einstaklingsmiðað og sniðið að þörfum hvers og eins. „Ég hafði ekki verið í skóla í tíu ár og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að bera mig að.“
Eitt af inntökuskilyrðunum hjá Hringsjá er að fólk þarf að taka námskeið hjá þeim fyrst. „Mig langaði mikið til að komast strax í skólann. Mig langaði að breyta mínu lífi og athuga hvort ég gæti ekki gert eitthvað í skóla,“ segir Ingi Sævar. „Grunnskólaganga mín var erfið. Ég varð fyrir einelti og skólinn var fyrir mér ekki öruggur staður til að vera á. Ég hafði áður farið í framhaldsskóla en ekki gengið vel. Ég fór á námskeið sem heitir „Úr frestun í framkvæmd“.“
Ingi Sævar var tekinn inn í skólann og þá hófst kafli í lífi hans sem hann segist aldrei munu gleyma. „Þegar maður kemur í skólann er gert stöðumat í ensku, íslensku og stærðfræði. Áður var ég þessi nemandi sem varð himinlifandi þegar hann fékk fimm í stærðfræði. Mér fannst það bara fínn árangur. Ég var ekkert sérstakur námsmaður.
Ég man að í stöðumatinu mundi ég ekki einu sinni hvernig maður leggur upp margföldunartöfluna. Ég lenti bara í vandræðum með það og varð að byrja upp á nýtt. Ég fann hins vegar að umhverfið þarna var rosalega gott. Starfsfólkið er yndislegt. Þarna var manni mætt eins og manneskju. Engu máli skipti hvaðan maður kom, hvað maður hafði verið að gera áður. Mér leið aldrei eins og einhver þarna væri æðri mér eða betri eða neitt svoleiðis.“
Svo byrjaði námið. „Kennararnir þarna eru eitthvert besta fólk sem ég hef kynnst,“ segir Ingi Sævar. „Mér fór að líða vel í skólanum. Ef ég gat einhverra hluta vegna ekki mætt í skólann, var til dæmis veikur eða eitthvað slíkt, þá leið mér illa. Ég fór að ná árangri og fór að fá áttur, níur og tíur í stærðfræði, nokkuð sem ég hafði aldrei upplifað áður. Sama gildir um íslensku, ensku og fleiri fög.“
Hringsjá er eins og hálfs árs skóli með einingakerfi. Þeir sem áður hafa lokið einingum annars staðar fá tekið tillit til þeirra og halda áfram þar sem frá var horfið. Þarna byggir fólk sig upp, öðlast sjálfstraust og eftir Hringsjá er fólk undir það búið að halda áfram og fara kannski í annan skóla.
Öðlaðist sjálfstraust
„Þegar ég kom þarna inn var sjálfstraustið mjög lítið en það breyttist. Eftir Hringsjá var ég kominn með það mikið sjálfstraust, hafði nógu mikla trú á sjálfum mér, að mig langaði að takast á við eitthvað meira þarna úti. Ég fór í kerfisstjóranám í Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum. Covid hefur reyndar sett strik í reikninginn þannig að ég á eina önn eftir til að klára það nám,“ segir Ingi Sævar.
„Fyrir mig er risastórt mál að finna þennan drifkraft og hafa áhuga á að gera þetta og ná árangri, komandi frá þeim stað sem ég var á. Þetta á ég Hringsjá að þakka. Hringsjá var vendipunktur í mínu lífi. Ég hélt aldrei að ég ætti möguleika á að ná að mennta mig á nokkurn hátt.“
Hringsjá býður upp á námskeið í leiklist til að gera fólki kleift að tjá sig. „Það styrkir okkur fyrir svo margt, eins og atvinnuviðtöl,“ segir Ingi Sævar, „nú eða að tala við blaðamann. Hér áður fyrr hefði ég ekki haft sjálfstraust til að gera það.
Eignaðist fjölskyldu
Hringsjá hefur gersamlega breytt lífi mínu til hins betra á öllum sviðum. Þar kynntist ég konunni minni og í dag eigum við tæplega átta mánaða gamla dóttur, auk þess sem ég fékk sex ára stjúpdóttur,“ segir Ingi Sævar.
„Hjá mér er hægt að tala um lífið fyrir Hringsjá annars vegar og hins vegar lífið eftir Hringsjá. Núna vinn ég hjá Elko í Lindum og er þar í þjónustustarfi. Mér gengur vel í vinnunni og ég kvíði ekki lengur framtíðinni. Ég hef ágæta möguleika innan Elko á að vinna mig upp. Í raun er ekki hægt að tala um sama manninn, mig fyrir rúmum þremur árum og mig í dag.“
Þegar Ingi Sævar byrjaði í Hringsjá voru liðin átta ár frá því hann var síðast í föstu starfi. „Þegar ég sótti um starfið hér skipti miklu máli að geta sýnt fram á að ég hefði farið í Hringsjá og snúið við blaðinu. Eitt atriði sem skiptir máli er til dæmis að í Hringsjá er okkur kennt að útbúa ferilskrá. Það skiptir máli þegar maður sækir um vinnu.“
Fólkið sem kemur í Hringsjá hefur átt erfitt. Þeir erfiðleikar geta verið af ýmsum toga og bakgrunnur nemenda í Hringsjá er fjölbreyttur. Þetta fólk getur verið að koma úr neysluheimi eða verið að kljást við þunglyndi eða kvíða. Þetta er alls konar. Þangað kemur fólk frá 18 ára og fram á miðjan aldur. Hringsjá býr þetta fólk undir nýja sókn í lífinu.
„Ég held að Hringsjá sé eitthvert best geymda leyndarmálið í bænum. Þetta er magnaður skóli og magnað umhverfi að vera í,“ segir Ingi Sævar Ingason að lokum og horfir björtum augum til framtíðarinnar.

„Eins og margir vandræðaunglingar kynntist ég fleiri mínum líkum og var farin að fikta við fíkniefni þrettán ára. Í kjölfarið sökk ég djúpt í fíkniefnaneyslu og kynntist eldri strák sem var dæmigerður ofbeldismaður og einangraði mig og útilokaði frá öllum sem ég þekkti. Þá missti ég öll tengsl við fjölskylduna og líf mitt varð hans líf, á hans forsendum. Þegar hann hvarf loks úr lífi mínu missti ég fótfestu um tíma og fannst ég ekkert geta gert né farið, enda hafði ég ekki menntað mig til neins né hafði ég nokkra einustu starfsreynslu,“ greinir Árný frá.
Þegar þarna var komið sögu gaf móðir Árnýjar Tinnu henni leyfi til að flytja aftur heim, enda var dóttir hennar bæði týnd og ráðalaus.
„Í heillangan tíma gerði ég ekki neitt því ég hafði aldrei unnið handtak um ævina. Það eina sem ég þekkti var heimurinn sem ég hafði verið í áður, en ég fann fyrir mikilli löngun til að fara í skóla og það var þá sem bæði mamma og VIRK bentu mér á Hringsjá, þar sem ég hóf almennt grunnnám.“
Hringsjá breytti lífinu
Árný Tinna segist eiga Hringsjá mikið að þakka.
„Hringsjá umbylti lífi mínu á allan hátt, og ég er sannfærð um að ég væri enn í sömu vondu blindgötunni ef ég hefði ekki fundið Hringsjá. Mórallinn innanhúss er æðislegur og kennararnir einstakir. Ég hef til dæmis alltaf hatað stærðfræði og talið mig vonlausa í faginu en stærðfræðikennarinn hafði næga þolinmæði til að kenna mér að reikna og gera stærðfræði að skemmtilegu fagi í mínum huga,“ segir Árný, sem var átján ára þegar hún hóf námið.
„Í Hringsjá lærði ég svo ótalmargt fleira en bara bóklegu fögin, því námið reyndist líka vera endurhæfing á mörgum fleiri sviðum. Og þótt nemendahópurinn kæmi úr ólíkum áttum og væri með ólíkan bakgrunn náði starfsfólkið að halda okkur saman í bæði hópmiðuðu og einstaklingsmiðuðu námi. Því náðum við öll að tengjast sterkum böndum, þótt við værum eins og svart og hvítt, því í Hringsjá áttuðum við okkur á að við ættum í raun mjög margt sameiginlegt og leituðum öll að því sama, sem var að reyna að betrumbæta okkur sjálf.“
Alltumvefjandi andrúmsloft
Í desember setur Árný Tinna upp stúdentshúfuna frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla.
„Hringsjá opnaði mér nýjar dyr að lífinu og eftir útskrift þaðan fór ég beint í Fjölbraut við Ármúla. Þessa dagana er ég með nettan valkvíða yfir öllum möguleikunum sem opnast eftir stúdentspróf, og ég hefði ekki trúað að ég ætti eftir að vera á þessum stað, en það þakka ég Hringsjá.“
Árnýju er minnisstæð kveðjustundin í Hringsjá.
„Þá borðuðum við saman síðustu máltíðina og áttum að segja nokkur orð, en ég endaði hágrátandi því ég vildi ekki kveðja Hringsjá og hefði viljað geta klárað stúdentinn þaðan. Ég væri til í að sjá Hringsjá kynnta fyrir nemendum strax í grunnskóla, sem mögulega leið til náms ef eitthvað kemur upp,“ segir Árný með mikilli væntumþykju í garð Hringsjár.
„Í Hringsjá er andrúmsloftið alltumvefjandi og heimilislegt, og þar ríkir mikil hlýja, væntumþykja og samheldni í garð nemenda. Mér leið ótrúlega vel í Hringsjá og margt af fólkinu sem ég kynntist þar er orðið að mínum bestu vinum. Hringsjá gaf mér nýtt líf og ný tækifæri, en mest um vert er að viðhorf mitt gagnvart lífinu gjörbreyttist. Ég get best lýst þessari umbreytingu sem atriði úr bíómyndinni Matrix þar sem Keanu Reeves rís upp úr baðkarinu, nývaknaður til lífsins á ný. Ég er nefnilega ný manneskja eftir Hringsjá og sé lífið í nýju ljósi.“

„Þar sem ég stóð á krossgötum með líf mitt sá ég auglýsingu um nám hjá Hringsjá sem er almennur skóli með öllum fögum. Ég dreif mig strax í heimsókn og fylltist vellíðan um leið og ég kom inn fyrir dyrnar. Ég sótti því um og fékk samþykki læknisins sem skrifaði upp á svo ég kæmist í námið. Það var mikið gæfuspor. Mér finnst það hafa bjargað lífi mínu að fara í Hringsjá eftir að hafa dottið úr mínu fagi eftir veikindin. Ég hafði áður verið í starfsendurhæfingu sem náði ekki að hjálpa mér þá, en í Hringsjá var önnur nálgun og allir svo ljúfir og góðir að manni fannst hreinlega að maður væri komin heim.“
Námið sem Elísabet María lauk hjá Hringsjá tekur þrjár annir.
„Meðan á náminu stóð lenti ég aftur í alvarlegum veikindum og þurfti að fresta einni önn út af spítalavist og endurhæfingu. Það reyndist sjálfsagt mál af hálfu Hringsjár og ríkti mikill skilningur á aðstæðum mínum. Ég mátti alltaf koma og vera með í tímum á meðan ég var í endurhæfingunni og mætti allsstaðar alúð og mikilli fagmennsku,“ greinir Elísabet frá.
Hún kveðst aldrei hafa verið sterk í stærðfræði.
„Ég hélt að slök stærðfræðikunnáttan stæði mér fyrir þrifum í náminu en það var nú aldeilis ekki. Í Hringsjá mætti ég mikinn skilningi á getu minni og í dag finnst mér stærðfræði leikur einn. Kennslan er einstaklingsmiðuð og þegar ég meðtók ekki aðferðir stærðfræðikennarans kom hann bara með aðra aðferð sem ég náði strax betur. Í Hringsjá er nefnilega komið til móts við þarfir og getustig hvers og eins með úrlausnum og aðferðum sem duga.“
Hjá Hringsjá starfa sálfræðingur, markþjálfar og félagsráðgjafar sem nemendur geta leitað til.
„Allsstaðar er mikið utanumhald um nemendur. Þar starfa englar í mannsmynd og ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa uppgötvað Hringsjá og lokið þaðan námi,“ segir Elísabet.
Í dag starfar hún sem móttökuritari á Húðlæknastöðinni.
„Þar nýtist námið mjög vel eins og tölvukunnáttan sem ég lærði hjá Hringsjá. Ég hef alltaf verið lesblind en les og svara nú tölvupóstum eins og ekkert sé. Ég nýt mín í vinnunni sem er einstaklega skemmtileg. Ég hafði áður verið föst í að leita að vinnu sem ég vissi að ég fengi ekki, og sennilega hefði ég aldrei sótt um þetta tiltekna starf. Það er Hringsjá að þakka að sjálfsmynd mín styrktist mikið og ég fékk trú á að gæti miklu meira en ég áður hélt,“ segir Elísabet.
Hún er þakklát fyrir tímann í Hringsjá.
„Námið var í heild sinni frábært og þetta var skemmtilegur tími. Í Hringsjá sækir breiður hópur fólks nám og þótt ég sé orðin fimmtug var ég í tímum með jafnöldrum dóttur minnar. Það breytti engu því okkur var mætt þar sem við stóðum, þrátt fyrir mismunandi bakgrunn. Þetta var ákaflega gefandi tímabil hjá mér og ég mæli af heilum hug með Hringsjá. Ekki síst fyrir þá sem standa á krossgötum og eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum eftir veikindi. Það sakar ekki að kynna sér námskeiðin, finna andann í húsinu og yndislegt viðmót starfsfólksins. Það er uppbyggjandi upplifun í sjálfu sér,“ segir Elísabet sem fór í áframhaldandi nám hjá NTV eftir útskrift frá Hringsjá.
„Þegar heimsfaraldurinn reið yfir ráðlagði lungnalæknirinn mér að taka námshlé. Í millitíðinni var mér svo boðin vinna á Húðlæknastöðinni og þar líður mér vel. Ég nýt hvers vinnudags og er alveg rosalega ánægð með lífið.“

Leiðin til betra lífs hófst í Grettistaki árið 2014, sem er endurhæfingarúrræði fyrir fíkla, og þaðan lá leiðin í Hringsjá þar sem hún stundaði nám um eins og hálfs árs skeið. „Ég hafði ekki setið á skólabekk í 25 ár og fyrri skólaganga mín var ekki góð. Ég þvældist á milli margra grunnskóla auk þess sem ég hef alla tíð átt erfitt með nám og það háði mér þegar ég gekk út í lífið seinna meir. Síðan bauðst mér þetta einstaka tækifæri, að taka hluta þriggja ára endurhæfingar minnar hjá Hringsjá sem var svo sannarlega frábær tími.“
Ótrúlegar breytingar
Námið hjá Hringsjá samanstóð af þremur önnum en fyrir henni var þessi tími þó miklu meira en skóli. „Þangað kemur alls konar fólk sem hefur þurft að glíma við margs konar vandamál. Margir koma brotnir inn en ná að byggja sig upp og verða að manneskjum á ný. Það var ótrúlegt að sjá breytingarnar á mörgum sem voru samferða mér þennan tíma. Hjá Hringsjá er öllum mætt á eigin forsendum og það er virkilega vel haldið um hvern og einn nemanda. Sjálfri fannst mér frábært að fá tækifæri til að setjast aftur á skólabekk og læra á ný. Ég kunni t.d. ekkert á tölvur en lærði inn á þær í náminu sem mér þótti virkilega lærdómsríkt.“
Hún segir námið hafa gefið sér mjög mikið sjálfstraust og raunar byr undir báða vængi. „Námið gaf mér tæki og tól og gerði mér kleift að stíga út á vinnumarkað með sjálfstraust og betri grunnþekkingu. Það er hugsað sem stökkpallur út í lífið, hvort sem frekara nám er valið eða vinnumarkaðurinn. Sjálf valdi ég vinnumarkaðinn og var ég fljótlega boðuð í atvinnuviðtal eftir að námi lauk.“
Allir velkomnir
Starf hennar hjá Húðlæknastöðinni var því það fyrsta sem hún hefur sinnt í mörg ár. „Það voru vissulega viðbrigði en um leið frábært tækifæri til að komast aftur út í lífið. Ég var búin að berjast í mörg ár við að ná bata en það gekk ekki upp fyrr en ég hóf náms- og starfsendurhæfingu hjá Hringsjá. Það sem stendur helst upp úr er fólkið sem vinnur þarna, bæði kennarar og starfsfólk sem umvefur mann kærleika. Flestir mæta til Hringsjár brotnir og með lítið sjálfstraust og því skiptir öllu máli að koma inn í umhverfi þar sem allir eru velkomnir og verða strax hluti af heildinni.“

„Ég hafði ekki verið í skóla í tvö ár og treysti mér ekki strax í venjulegan framhaldsskóla. Mér hafði alltaf gengið illa að læra, sérstaklega stærðfræði. Ég var áður í Fjölbraut í Garðabæ en þjáðist af félagsfælni, fór að drekka mikið, hætti í vinnu og datt út úr skólanum,“ útskýrir Þorgerður Ævarsdóttir en hún útskrifaðist frá Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu, þann 18. maí 2017.
Hjá Hringsjá hafi hún fundið stuðninginn og utanumhaldið sem hún þurfti til að ná sér á strik.
„Þetta bjargaði mér. Að komast í rútínu og hafa eitthvað að gera á hverjum degi. Annars var ég bara sofandi heima allan daginn og ekki fær til þess að gera neitt,“ segir Þorgerður.
„Ég heyrði af Hringsjá hjá vinkonu minni sem hafði farið á kynningu. Ég talaði við námsráðgjafa og fór á námskeið. Svo komst ég inn. Ég náði að byggja mig upp og sjálfstraustið líka. Námið er mjög einstaklingsmiðað og sniðið að getu hvers og eins. Til dæmis geta nemendur verið að vinna með mismunandi bækur. Í framhaldsskóla þurfa allir að vera á sama stað á sama tíma. Það reyndist mér erfitt en í Hringsjá var mér tekið eins og ég er og þar fékk ég auka aðstoð við það sem þurfti,“ segir Þorgerður.
Hún stefnir ótrauð á frekara nám. „Ég er búin að sækja um í Fjölbraut í Ármúla og mig langar að klára stúdentinn. Ég verð áfram í eftirfylgni hjá Hringsjá og svo langar mig í háskóla. Ég hef áhuga á að læra sálfræði.“
Sjálfstraustið óx
Gunnar Sölvi Theodórsson tekur undir með Þorgerði, stuðningurinn hafi verið ómetanlegur hjá Hringsjá og hvetjandi andrúmsloftið í skólanum hafi byggt upp sjálfstraustið.
„Ég byrjaði og hætti í menntaskóla ansi oft. Ég var þjakaður af mikilli félagsfælni og kvíða. Ég fór eingöngu í menntaskóla af því að allir jafnaldrar mínir gerðu það, ég vissi sjálfur ekkert hvað mig langaði til að gera,“ segir Gunnar. Honum var ráðlagt að læra iðn og reyndi fyrir sér í Borgarholtsskóla.
„Ég var svo kvíðinn að ég þorði ekki upp í matsal að borða, bara það að vera inni í byggingunni var kvöl og pína. Svo liðu árin í neyslu og rugli. Mig langaði alltaf að halda áfram námi en náði mér ekki á strik fyrr en eftir meðferð á Vogi. Eftir hana var ég í eitt og hálft ár á áfangaheimilinu Draumasetrinu þar sem félagsráðgjafi sagði mér af Hringsjá.“
Gunnar segir Hringsjá frábæran vettvang til að byggja sig upp. Umhverfið rólegt og þar mæti fólk skilningi. „Fólk veit að allir sem eru hér hafa sínar ástæður. Hver og einn er að fást við sitt og fólk sýnir samkennd og hlýhug. Maður fær mikinn stuðning frá kennurunum og námið er einstaklingsmiðað. Hér hefur maður einnig aðgang að námsráðgjafa, félagsráðgjafa og sálfræðingi á staðnum. Þegar sjálfstraustið var komið fann ég fljótlega að námið sem slíkt vafðist ekki fyrir mér. Ég gat rumpað verkefnum af hratt og fékk þá að bæta við mig. Mér gengur vel og stefnan er að fara í Háskólabrúna. Ég gæti þurft að sækja einhverjar einingar í fjarnámi en 25 ára reglan setur manni dálítið stólinn fyrir dyrnar.“

Starfið hjá Hringsjá snýst um að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og byggir helst á námi, kennslu, ráðgjöf og stuðningi. Námið er einstaklingsmiðað og hentar vel þeim sem hafa litla grunnmenntun eða eiga erfitt með nám. Helga segir að Hringsjá hafi gjörbreytt lífi sínu. „Þetta var eins og að fá lottóvinning,“ segir hún. Helga var búin að glíma við stoðkerfisvandamál og fæðingarþunglyndi í langan tíma þegar hún ákvað að taka líf sitt í gegn.
Mikið þunglyndi
„Ég þjáðist af miklu þunglyndi og vandamálum í stoðkerfi. Ég hafði ekki verið virk á vinnumarkaði í tíu ár. Einn daginn var ég að hjálpa syni mínum með stærðfræði og uppgötvaði að ég kunni ekki það sem hann var að gera. Það varð kveikjan að því að ég leitaði til Hringsjár en ég hafði heyrt um starfsemina frá vini mínum. Hann talaði fallega um starfsemina, vel væri hugsað um hvern og einn með frábærum árangri,“ segir Helga en fyrsta skrefið var að fara á Reykjalund í endurhæfingu. „Meðal annars var lögð áhersla á hugræna atferlismeðferð sem gerði mér mjög gott,“ segir hún.
Góð endurhæfing
„Eftir að hafa verið í endurhæfingu um tíma sóttu iðjuþjálfarar á Reykjalundi um fyrir mig hjá Hringsjá. Til að komast að þurfti maður að sýna virkilega mikinn áhuga á bata. Ég fór á tvö námskeið, annað í bókhaldi og hitt í tölvum. Mjög áríðandi var að stunda námið af heilum hug og mæta í alla tíma,“ útskýrir Helga.
„Þegar ég sóttist eftir að komast að hjá Hringsjá voru um eitt hundrað umsóknir. Rúmlega tuttugu komust inn svo þetta var algjör lóttóvinningur fyrir mig,“ segir hún.
Lesblinda uppgötvaðist
Helga fór í nám hjá Hringsjá sem gaf einingar til áframhaldandi náms. „Námið byggir á hraða sem hentar hverjum og einum. Þarna uppgötvaðist að ég væri lesblind sem ég hafði enga hugmynd um. Allt í einu var ég ekki heimsk eins og ég hafði alltaf talið mig vera. Ég átti mjög erfitt með að læra á sínum tíma. Það var mér um megn að þurfa að fara upp að töflu og lesa upphátt, eins og tíðkaðist þá. Það var mikil niðurlæging þegar kennarinn kallaði mig upp enda er þetta eitthvað það versta sem hendir þá sem eru lesblindir,“ segir Helga.
„Það var hrikalegt að lesa upp fyrir bekkinn og sjá bara annað hvert orð. Ég féll í stærðfræði og íslensku og flosnaði síðan upp úr skóla. Ég fékk þau skilaboð frá kennurum að ég væri tossi,“ segir Helga.
Það var því mikil blessun fyrir hana að fá greiningu og breytti öllu fyrir hana í náminu.
Vildi ekki vera föst í örorku
„Eftir að ég byrjaði í Hringsjá fékk ég níu og tíu í stærðfræði og átta í íslensku. Í dag get ég hjálpað börnum mínum með heimalærdóminn. Það er góð tilfinning,“ rifjar hún upp. Námið var þrjár annir og Helga lauk því með glans. Hjá Hringsjá fékk hún einnig aðstoð við hreyfingu í líkamsræktarstöð Sjálfsbjargar. „Ég var mjög kvíðin þegar ég byrjaði hjá Hringsjá en það breyttist fljótt. Ég hefði aldrei getað staðið upp fyrir framan fólk áður. Núna er ég í stjórn Félags flogaveikra en ég greindist með flogaveiki um það leyti sem ég byrjaði í Hringsjá,“ segir hún.
Lyfjatæknir í dag
Eftir að Helga lauk námi hjá Hringsjá fór hún í lyfjatækninám í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Núna starfar hún sem lyfjatæknir á Landspítalanum. „Mig langaði aldrei að sitja föst í örorku,“ segir hún. „Fór strax að vinna eftir námið og líkar það mjög vel. Ég kalla Hringsjá lífsbjörgina mína. Eftir að ég byrjaði hjá Hringsjá varð einhvers konar nýtt upphaf í lífi mínu. Bara að fara út á meðal fólks og eiga við það samskipti hefur ótrúlega góð áhrif á mann. Ég get því mælt með Hringsjá fyrir alla þá sem þrá að komast aftur út í lífið og uppgötva að mennt er máttur.“

„Ég var alltaf lasin þegar ég var unglingur og mætti illa í skólann. Enginn fann neina ástæðu, ég bara alltaf þreytt og illa upplögð. Þegar kom að því að fara í framhaldsskóla var ég harðákveðin í að standa mig vel enda vissi ég að þar er ekki sami slaki og grunnskólinn býður upp á, í framhaldsskólanum verður þú að mæta, annars fellurðu bara. Ég byrjaði vel en gekk alveg fram af mér í skólanum og fékk í kjölfarið mitt fyrsta MS kast og flosnaði upp úr skóla sem var töluvert áfall. Ég var sautján ára og missti þennan hvata sem allt ungt fólk á að hafa. Eftir eitt slæmt MS kast fór ég á Reykjalund til að ná upp þrótti. Þar hitti ég sálfræðing sem þekkti vel til í Hringsjá og spurði hvort ég væri til í að prófa svoleiðis skóla. Ég hélt ekki, viss um að ég hefði ekki neina orku eða getu til að mæta neins staðar. En hann hvatti mig áfram og ég ákvað að prófa. Og nýr heimur opnaðist,“ segir Fanney.
„Námið í Hringsjá er þrjár annir og svo fer maður alltaf á námskeið líka. Það er verið að gefa fólki annað tækifæri til að byggja upp grunn svo að það er alveg byrjað frá byrjun, ég byrjaði á plús og mínus og grundvallarmálfræði í íslensku. Ég lærði samt mest á sjálfa mig, fór að trúa að ég gæti eitthvað, væri kannski bara pínu klár, gæti kannski mætt og mögulega staðið mig.
Í Hringsjá fékk ég mýkt og skilning en líka hvatningu, og þetta er eiginlega eins og verið sé að kveikja ljós í dimmu herbergi. Það er lygilegt hvað þessi blessaði skóli og allt starfið sem þar fer fram gerir fyrir fólk. Ég var komin á stoppistöð, búin að sætta mig við að ég myndi aldrei gera neitt, aldrei læra neitt eða vinna, að þar sem ég væri með MS væri ég dæmd til að vera bara heima og stimpla mig út úr samfélaginu. Ég var ekki stolt af þessu hlutskipti en datt ekki í hug að það væri neitt við því að gera,“ segir hún.
„Ég var í rauninni svo uppnumin yfir því að geta lært að ég var ekkert alveg viss um hvað ég vildi gera. Ég vissi samt að það heillaði mig að vera í umönnun og aðstoða aðra. Og mig langaði að prófa að vinna sem ég sjálf, ekki tala á blaði. Ég þurfti svo að fara aftur á Reykjalund og meðan ég var þar var hringt frá FB þar sem ég hafði verið í eina önn. Þar var verið að fylgjast með því fólki sem hafði verið í skólanum, hvað það væri að gera og hvort það vildi koma aftur í skólann. Ég ákvað að slá til og skella mér í sjúkraliðanám þar.
Ég byrjaði hægt, tók bara níu einingar fyrstu önnina, því ég hélt að ég hefði kannski verið of vafin í bómull í Hringsjá. En svo gekk þetta svo vel að ég útskrifaðist núna í desember með stúdentspróf af sjúkraliðabraut og ég dúxaði! Hver hefði trúað því að litli krakkinn sem slefaði á samræmdu og féll meira að segja í stærðfræði myndi dúxa í framhaldsskólanum sínum?
Ég þakka Hringsjá alveg klárlega fyrir þennan metnað sem þau kveiktu innra með mér og stuðninginn sem ég fékk þar. Ég þarf að hafa fyrir því að læra og ég eyði miklum tíma í það. En ég uppsker algerlega það sem ég sái af því að í Hringsjá lærði ég að læra.
Ég stefni á að fara í hjúkrunarfræði næsta haust, nokkuð sem mér datt aldrei í hug að ætti eftir að liggja fyrir mér. En ég bíð spennt og ekkert stressuð því ég er vel undirbúin.
Ég vil segja við fólk í minni stöðu sem les þessa grein: Þetta er hægt! Bara prófa og halda áfram að reyna því það má gera mistök og það liggur ekkert á! Þetta hefst á endanum!
Það góða við þetta allt er að maður finnur sér svo alltaf ný markmið og eitthvað nýtt að gera og stefna að. Ég er komin með stefnu og markmið og leiðin liggur bara upp á við!“

„Góður skóli", segir Mariana Carmen Sineavschi, sem í útskrifaðist frá Hringsjá náms- og starfsendurhæfingu vorið 2015 eftir þriggja anna nám.
„Ég mæli þúsund prósent með skólanum. Þetta er ekki bara besti skóli á Íslandi heldur í heiminum.
Þegar ég byrjaði í Hringsjá fannst mér eins og ég væri komin heim. Þar eru allir svo vinalegir, persónulegir, kurteisir og hjálplegir. Hver og einn fær góðan stuðning og námið er mjög einstaklingsmiðað. Stuðningurinn miðar ekki aðeins að náminu heldur fékk ég þar bæði sálrænan og félagslegan stuðning,“ segir Mariana ánægð.
Í Hringsjá lærði Mariana meðal annars félagsfræði, ensku, stærðfræði, bókhald, íslensku, heimspeki, sálfræði, upplýsingatækni og námstækni.
„Mig langaði að klára stúdentspróf en ég var ekki tilbúin að fara í almennan skóla. Ég var ekki vel á mig komin andlega og líkamlega og fór því á Reykjalund. Þar var mér bent á að fara í Hringsjá og Virk starfsendurhæfingarsjóður greiddi námið fyrir mig. Mér var sagt að Hringsjá væri góður skóli, bæði fyrir þá sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að læra og fyrir útlendinga en ég er frá Rúmeníu og hef búið á Íslandi í tæp tólf ár. Það kom svo sannarlega í ljós að skólinn var góður því ég er næstum döpur yfir að vera að útskrifast úr Hringsjá.“
Mariana ætlar þó ekki að kveðja Hringsjá alveg og mun fá stuðning þaðan næsta haust til að stunda skrifstofunám hjá NTV.
„Ég var í tölvubókhaldi í Hringsjá á síðustu önn og er nú á framhaldsnámskeiði í tölvubókhaldi hjá NTV. Svo langar mig í löggilt bókaranám seinna. Draumurinn er að klára stúdentspróf en það er erfitt þar sem fólk eldra en 25 ára getur ekki lengur farið í framhaldsskóla. Það ætti bara að vera hægt að taka stúdentsprófin í Hringsjá,“ segir hún og brosir.

„Þetta er búið að vera algjör snilld“, segir Kristján Jónsson sem í vikunni útskrifaðist frá Hringsjá – náms- og starfsendurhæfingu eftir þriggja anna nám.
„Mér finnst ég hafa þroskast mikið á þessum mánuðum og hér hafa góðir hlutir gerst. Ég kom boginn inn en gekk teinréttur út,“ segir Kristján.
Hann verður fimmtugur í næsta mánuði og sat síðast á skólabekk árið 1991. „Ég á mér neyslusögu, var lengi í brennivíni og í fíkniefnum í seinni tíð. Nú er ég búinn að vera edrú í fjögur ár eftir að hafa farið í meðferð hjá SÁÁ.“
Eftir að Kristján lauk meðferð lá leið hans í Grettistak þar sem félagsráðgjafar á vegum borgarinnar hjálpa fólki við endurhæfingu. Kristjáni gekk hins vegar illa að ná sambandi við sinn ráðgjafa sem hvatti hann til að senda sér bara tölvupóst sem hún myndi svara um hæl. „Það var hlutur sem ég kunni bara alls ekki á og ég sagði henni það. Þá benti hún mér á að rétt væri að ég færi á tölvunámskeið inni í Hringsjá sem ég og gerði. Mér fannst svo gaman að vera þar að ég fór í kjölfarið á minnisnámskeið þar. Og eftir þessi tvö námskeið var ég farinn að átta mig á því að ég gæti alveg verið í skóla. Það hafði lengi verið draumur hjá mér en ég hafði ekki þorað það, mér fannst ég ekki eiga heima þar. Ég sá að ég gat alveg lært.“
Samhliða náminu í Hringsjá hefur Kristján verið að læra í Tækniskólanum. Þar er hann að ljúka sveinsprófi í málaraiðn. „Ég hef lokið 33 einingum í Hringsjá og réttindin eru handan við hornið í Tækniskólanum. Og það eru margir aðrir jákvæðir hlutir í gangi. Fimmtán ára dóttir mín býr til dæmis hjá mér í dag og ég er búinn að ráða mig í vinnu,“ segir hann.
Kristján kveðst mæla með náminu í Hringsjá. „Þetta er eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Maður kemur syngjandi þaðan út. Þetta er einstaklingsmiðað nám og þú ert ekki í samkeppni við einn eða neinn. Ef þú ert eitthvað á eftir hinum þá ertu samt í góðum málum. Þú færð þá aðstoð sem þú þarft.“