Hringsja Logo

Anna María

Tíminn í Hringsjá hefur svo sannarlega breytt öllu í lífi Önnu Maríu Sigtryggsdóttur sem fór snemma út af beinu brautinni í lífinu. Skólaganga hennar var stutt, hún tolldi illa í starfi og hefur lengi glímt við fíknivanda. „Mér tókst loks að breyta lífi mínu fyrir nokkrum árum þegar ég hóf þriggja ára endurhæfingu mína en þar skipaði Hringsjá stærstan sess. Nú hef ég verið edrú í fimm ár og hef starfað sem ritari á Húðlæknastöðinni á Smáratorgi í eitt og hálft ár og er bjartsýn á lífið fram undan.“

Leiðin til betra lífs hófst í Grettistaki árið 2014, sem er endurhæfingarúrræði fyrir fíkla, og þaðan lá leiðin í Hringsjá þar sem hún stundaði nám um eins og hálfs árs skeið. „Ég hafði ekki setið á skólabekk í 25 ár og fyrri skólaganga mín var ekki góð. Ég þvældist á milli margra grunnskóla auk þess sem ég hef alla tíð átt erfitt með nám og það háði mér þegar ég gekk út í lífið seinna meir. Síðan bauðst mér þetta einstaka tækifæri, að taka hluta þriggja ára endurhæfingar minnar hjá Hringsjá sem var svo sannarlega frábær tími.“

Ótrúlegar breytingar

Námið hjá Hringsjá samanstóð af þremur önnum en fyrir henni var þessi tími þó miklu meira en skóli. „Þangað kemur alls konar fólk sem hefur þurft að glíma við margs konar vandamál. Margir koma brotnir inn en ná að byggja sig upp og verða að manneskjum á ný. Það var ótrúlegt að sjá breytingarnar á mörgum sem voru samferða mér þennan tíma. Hjá Hringsjá er öllum mætt á eigin forsendum og það er virkilega vel haldið um hvern og einn nemanda. Sjálfri fannst mér frábært að fá tækifæri til að setjast aftur á skólabekk og læra á ný. Ég kunni t.d. ekkert á tölvur en lærði inn á þær í náminu sem mér þótti virkilega lærdómsríkt.“

Hún segir námið hafa gefið sér mjög mikið sjálfstraust og raunar byr undir báða vængi. „Námið gaf mér tæki og tól og gerði mér kleift að stíga út á vinnumarkað með sjálfstraust og betri grunnþekkingu. Það er hugsað sem stökkpallur út í lífið, hvort sem frekara nám er valið eða vinnumarkaðurinn. Sjálf valdi ég vinnumarkaðinn og var ég fljótlega boðuð í atvinnuviðtal eftir að námi lauk.“

Allir velkomnir

Starf hennar hjá Húðlæknastöðinni var því það fyrsta sem hún hefur sinnt í mörg ár. „Það voru vissulega viðbrigði en um leið frábært tækifæri til að komast aftur út í lífið. Ég var búin að berjast í mörg ár við að ná bata en það gekk ekki upp fyrr en ég hóf náms- og starfsendurhæfingu hjá Hringsjá. Það sem stendur helst upp úr er fólkið sem vinnur þarna, bæði kennarar og starfsfólk sem umvefur mann kærleika. Flestir mæta til Hringsjár brotnir og með lítið sjálfstraust og því skiptir öllu máli að koma inn í umhverfi þar sem allir eru velkomnir og verða strax hluti af heildinni.“

Deildu þessu: