Hringsja Logo

Árný Tinna

„Ég ólst upp á óstöðugu heimili þar sem pabbi var aldrei inni í myndinni. Mamma átti mig kornung og var mjög veik á uppvaxtarárum mínum. Það var því lítil festa heima og ég breyttist fljótt í vandræðaungling,“ segir Árný sem er fædd og uppalin í Hafnarfirði.

„Eins og margir vandræðaunglingar kynntist ég fleiri mínum líkum og var farin að fikta við fíkniefni þrettán ára. Í kjölfarið sökk ég djúpt í fíkniefnaneyslu og kynntist eldri strák sem var dæmigerður ofbeldismaður og einangraði mig og útilokaði frá öllum sem ég þekkti. Þá missti ég öll tengsl við fjölskylduna og líf mitt varð hans líf, á hans forsendum. Þegar hann hvarf loks úr lífi mínu missti ég fótfestu um tíma og fannst ég ekkert geta gert né farið, enda hafði ég ekki menntað mig til neins né hafði ég nokkra einustu starfsreynslu,“ greinir Árný frá.

Þegar þarna var komið sögu gaf móðir Árnýjar Tinnu henni leyfi til að flytja aftur heim, enda var dóttir hennar bæði týnd og ráðalaus.

„Í heillangan tíma gerði ég ekki neitt því ég hafði aldrei unnið handtak um ævina. Það eina sem ég þekkti var heimurinn sem ég hafði verið í áður, en ég fann fyrir mikilli löngun til að fara í skóla og það var þá sem bæði mamma og VIRK bentu mér á Hringsjá, þar sem ég hóf almennt grunnnám.“

Hringsjá breytti lífinu

Árný Tinna segist eiga Hringsjá mikið að þakka.
„Hringsjá umbylti lífi mínu á allan hátt, og ég er sannfærð um að ég væri enn í sömu vondu blindgötunni ef ég hefði ekki fundið Hringsjá. Mórallinn innanhúss er æðislegur og kennararnir einstakir. Ég hef til dæmis alltaf hatað stærðfræði og talið mig vonlausa í faginu en stærðfræðikennarinn hafði næga þolinmæði til að kenna mér að reikna og gera stærðfræði að skemmtilegu fagi í mínum huga,“ segir Árný, sem var átján ára þegar hún hóf námið.

„Í Hringsjá lærði ég svo ótalmargt fleira en bara bóklegu fögin, því námið reyndist líka vera endurhæfing á mörgum fleiri sviðum. Og þótt nemendahópurinn kæmi úr ólíkum áttum og væri með ólíkan bakgrunn náði starfsfólkið að halda okkur saman í bæði hópmiðuðu og einstaklingsmiðuðu námi. Því náðum við öll að tengjast sterkum böndum, þótt við værum eins og svart og hvítt, því í Hringsjá áttuðum við okkur á að við ættum í raun mjög margt sameiginlegt og leituðum öll að því sama, sem var að reyna að betrumbæta okkur sjálf.“

Alltumvefjandi andrúmsloft
Í desember setur Árný Tinna upp stúdentshúfuna frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla.

„Hringsjá opnaði mér nýjar dyr að lífinu og eftir útskrift þaðan fór ég beint í Fjölbraut við Ármúla. Þessa dagana er ég með nettan valkvíða yfir öllum möguleikunum sem opnast eftir stúdentspróf, og ég hefði ekki trúað að ég ætti eftir að vera á þessum stað, en það þakka ég Hringsjá.“

Árnýju er minnisstæð kveðjustundin í Hringsjá.

Deildu þessu: