Hringsja Logo

Árangur

Mikilvægt er að framkvæma árangursmælingar á því starfi sem fer fram í Hringsjá. Markmiðin með árangursmælingunum eru að kanna viðhorf og hagi útskrifaðra nemenda Hringsjár og að kanna árangur af starfseminni.

Til að fá upplýsingar um stöðu einstaklinga sem útskrifaðir hafa verið frá Hringsjá undanfarin ár var leitað samstarfs við kennara í diplómanámi í starfsendurhæfingu um gerð könnunar. Nemendur í diplómanámi í starfsendurhæfingu gerðu könnun á náms- og starfsendurhæfingu hjá Hringsjá á árunum 2012-2019. Verkefnið var unnið í áfanganum Nýsköpun á vettvangi: Fræði og fag við Háskóla Íslands undir leiðsögn dr. Ástu Snorradóttur, lektors við félagsráðgjafadeild H.Í.

Á árunum 2012-2019 útskrifuðust 256 manns eftir 3ja anna nám frá Hringsjá, 174 konur og 82 karlar. Alls svöruðu 76 einstaklingar könnuninni, 54 konur og 22 karlar. Ekki var marktækur munur á svarhlutfalli kynjanna. Miðað við fyrri kannanir hefur þátttakendum í yngsta aldurshópnum 18-24 ára fjölgað úr 4% í 28%. Einnig fjölgaði þeim sem eingöngu voru með grunnskólapróf úr 37% í um 48%. Alls eru 59% í fullri vinnu eða hlutastarfi á móti 33% í fyrri könnunum. Flestir, eða 76% svarenda, höfðu stundað nám af einhverju tagi, allt frá námskeiðum til háskólanáms eftir að starfsendurhæfingu lauk. Alls eru 27%  í námi núna. Þannig að hlutfall svarenda sem eru í námi eða starfi að hluta til eða að fullu er 86%.

Helstu niðurstöður eru að meðalaldur þátttakenda er lægri en áður, fleiri eru eingöngu með grunnskólapróf við upphaf starfsendurhæfingar, fleiri skila sér út á vinnumarkað og þátttakendur eru duglegir að bæta við sig þekkingu í formi náms eða námskeiða að lokinni starfsendurhæfingu hjá Hringsjá.

Þessi könnun sýnir að náms- og starfsendurhæfing Hringsjár skilar árangri fyrir þátttakendur bæði hvað varðar betri líðan og atvinnuþátttöku. Við gerð þessa verkefnis kom í ljós að samspil umhverfis, starfsfólks og úrræða Hringsjár skilar sér í góðum árangri flestra þátttakenda og í sumum tilfellum taka sumir alveg nýja stefnu í lífinu.

Anna Sigríður Einarsdóttir (2013) gerði sambærilega rannsókn í MA ritgerð sinni;  Árangur náms- og starfsendurhæfingar. Tengsl við trú á eigin getu til náms- og starfsákvörðunar.

https://skemman.is/bitstream/1946/14916/1/MA%20ritger%c3%b0%20-%20Lokaeintak.pdf

Árangursmælingin náði til þeirra sem útskrifuðust á árunum 2008-2011, samtals 121 einstaklingur. Helstu niðurstöður voru þær að stór hluti þátttakenda eða 81% var virkur í námi og/eða starfi eftir endurhæfinguna.

Árangursmælingin sem hér um ræðir nær til útskrifaðra nemenda Hringsjár á haustönn 2005 til vorannar 2008 eða samtals 6 útskriftarhópa. Úrtakið náði til 70 nemenda og var unnið eftir listum yfir útskrifaða nemendur í gagnagrunni Hringsjár. Svarhlutfall var 86%.

Meirihluti svarenda telur að námið í Hringsjá hafi staðið fyllilega undir væntingum og 39% svöruðu að námið hefði nýst til áframhaldandi náms. Alls 35% svöruðu því til að þau hefðu verið í vinnu samfellt í 6 mánuði eða meira, í hlutastarfi eða fullu starfi eftir námið í Hringsjá. Hér er því um áþreifanlegan árangur af náms- og starfsendurhæfingunni að ræða en 74% svarenda eru í námi eða vinnu að hluta til eða að fullu. Svarendur telja að námið í Hringsjá hafi eflt sjálfstraust sitt og telja 78% svarenda sjálftraust sitt hafa batnað mjög mikið eða mikið eftir námið í Hringsjá. Einnig telja 76% svarenda að skipulag þeirra hafi batnað eftir námið og 70% telja að aðstæður sínar hafi breyst til hins betra eftir námið í Hringsjá.

Guðrún Hannesdóttir fyrrum forstöðumaður Hringsjár gerði rannsókn á árangri náms- og starfsendurhæfingar Hringsjár sem hluta af meistararitgerð sinni:  Til mikils er að vinna: Starfsendurhæfing, stefna og leiðir til virkni og þátttöku í samfélaginu (2009).

GudrunHannesdottir_MARitgerd_fixed.pdf

Könnunin nær til allra sem luku tveimur til þremur námsönnum í Hringsjá frá upphafi starfseminnar 1987 til desember 2004, samtals 257 einstaklingar. Alls svöruðu 143 spurningalistanum og svarhlutfall því um 57%. Samtals voru 75% svarenda virkir í vinnu, námi eða endurhæfingu eftir útskrift frá Hringsjá.