Hringsja Logo

Ingi Sævar

Hringsjá er skóli í Reykjavík sem veitir náms- og starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga, 18 ára og eldri, sem vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla þurfa á endurhæfingu að halda til að takast á við nám og/eða að stunda atvinnu á almennum vinnumarkaði.

Námið hentar einnig þeim sem hafa litla grunnmenntun eða sértæka námserfiðleika. Stefnt er að því að þeir sem útskrifast frá Hringsjá séu færir um að takast á við nám í almennum framhaldsskólum og finna störf við hæfi á almennum vinnumarkaði.

Ingi Sævar Ingason kynntist Hringsjá í endurhæfingarprógrammi fyrir óvirka fíkla sem heitir Grettistak. Eitt og annað hafði gengið á í lífi hans. Í Grettistaki koma skólar og kynna það sem þeir hafa upp á að bjóða. Einn þessara skóla er Hringsjá. Á kynningu skólans voru nemendur með í för og kynntu skólann sem Ingi Sævar hafði aldrei áður heyrt nefndan og vissi ekki að væri til.

„Eitt af því sem mér fannst mjög heillandi við þennan skóla var að í kynningunni kom fram að á morgnana væri alltaf frír morgunmatur á staðnum. Það fannst mér alveg geggjað. Frábær sölupunktur. En þarna var líka sagt frá því hvernig starfsfólkið væri og út á hvað námið gengi,“ segir Ingi Sævar.

Sniðið að hverjum og einum

Hringsjá gengur mikið út á að mæta nemandanum eins og hann er. Engu máli skiptir hvaðan hann kemur, námið er einstaklingsmiðað og sniðið að þörfum hvers og eins. „Ég hafði ekki verið í skóla í tíu ár og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að bera mig að.“

Eitt af inntökuskilyrðunum hjá Hringsjá er að fólk þarf að taka námskeið hjá þeim fyrst. „Mig langaði mikið til að komast strax í skólann. Mig langaði að breyta mínu lífi og athuga hvort ég gæti ekki gert eitthvað í skóla,“ segir Ingi Sævar. „Grunnskólaganga mín var erfið. Ég varð fyrir einelti og skólinn var fyrir mér ekki öruggur staður til að vera á. Ég hafði áður farið í framhaldsskóla en ekki gengið vel. Ég fór á námskeið sem heitir „Úr frestun í framkvæmd“.“

Ingi Sævar var tekinn inn í skólann og þá hófst kafli í lífi hans sem hann segist aldrei munu gleyma. „Þegar maður kemur í skólann er gert stöðumat í ensku, íslensku og stærðfræði. Áður var ég þessi nemandi sem varð himinlifandi þegar hann fékk fimm í stærðfræði. Mér fannst það bara fínn árangur. Ég var ekkert sérstakur námsmaður.

Ég man að í stöðumatinu mundi ég ekki einu sinni hvernig maður leggur upp margföldunartöfluna. Ég lenti bara í vandræðum með það og varð að byrja upp á nýtt. Ég fann hins vegar að umhverfið þarna var rosalega gott. Starfsfólkið er yndislegt. Þarna var manni mætt eins og manneskju. Engu máli skipti hvaðan maður kom, hvað maður hafði verið að gera áður. Mér leið aldrei eins og einhver þarna væri æðri mér eða betri eða neitt svoleiðis.“

Svo byrjaði námið. „Kennararnir þarna eru eitthvert besta fólk sem ég hef kynnst,“ segir Ingi Sævar. „Mér fór að líða vel í skólanum. Ef ég gat einhverra hluta vegna ekki mætt í skólann, var til dæmis veikur eða eitthvað slíkt, þá leið mér illa. Ég fór að ná árangri og fór að fá áttur, níur og tíur í stærðfræði, nokkuð sem ég hafði aldrei upplifað áður. Sama gildir um íslensku, ensku og fleiri fög.“

Hringsjá er eins og hálfs árs skóli með einingakerfi. Þeir sem áður hafa lokið einingum annars staðar fá tekið tillit til þeirra og halda áfram þar sem frá var horfið. Þarna byggir fólk sig upp, öðlast sjálfstraust og eftir Hringsjá er fólk undir það búið að halda áfram og fara kannski í annan skóla.

Öðlaðist sjálfstraust

„Þegar ég kom þarna inn var sjálfstraustið mjög lítið en það breyttist. Eftir Hringsjá var ég kominn með það mikið sjálfstraust, hafði nógu mikla trú á sjálfum mér, að mig langaði að takast á við eitthvað meira þarna úti. Ég fór í kerfisstjóranám í Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum. Covid hefur reyndar sett strik í reikninginn þannig að ég á eina önn eftir til að klára það nám,“ segir Ingi Sævar.

„Fyrir mig er risastórt mál að finna þennan drifkraft og hafa áhuga á að gera þetta og ná árangri, komandi frá þeim stað sem ég var á. Þetta á ég Hringsjá að þakka. Hringsjá var vendipunktur í mínu lífi. Ég hélt aldrei að ég ætti möguleika á að ná að mennta mig á nokkurn hátt.“

Hringsjá býður upp á námskeið í leiklist til að gera fólki kleift að tjá sig. „Það styrkir okkur fyrir svo margt, eins og atvinnuviðtöl,“ segir Ingi Sævar, „nú eða að tala við blaðamann. Hér áður fyrr hefði ég ekki haft sjálfstraust til að gera það.

Eignaðist fjölskyldu

Hringsjá hefur gersamlega breytt lífi mínu til hins betra á öllum sviðum. Þar kynntist ég konunni minni og í dag eigum við tæplega átta mánaða gamla dóttur, auk þess sem ég fékk sex ára stjúpdóttur,“ segir Ingi Sævar.

„Hjá mér er hægt að tala um lífið fyrir Hringsjá annars vegar og hins vegar lífið eftir Hringsjá. Núna vinn ég hjá Elko í Lindum og er þar í þjónustustarfi. Mér gengur vel í vinnunni og ég kvíði ekki lengur framtíðinni. Ég hef ágæta möguleika innan Elko á að vinna mig upp. Í raun er ekki hægt að tala um sama manninn, mig fyrir rúmum þremur árum og mig í dag.“

Þegar Ingi Sævar byrjaði í Hringsjá voru liðin átta ár frá því hann var síðast í föstu starfi. „Þegar ég sótti um starfið hér skipti miklu máli að geta sýnt fram á að ég hefði farið í Hringsjá og snúið við blaðinu. Eitt atriði sem skiptir máli er til dæmis að í Hringsjá er okkur kennt að útbúa ferilskrá. Það skiptir máli þegar maður sækir um vinnu.“

Fólkið sem kemur í Hringsjá hefur átt erfitt. Þeir erfiðleikar geta verið af ýmsum toga og bakgrunnur nemenda í Hringsjá er fjölbreyttur. Þetta fólk getur verið að koma úr neysluheimi eða verið að kljást við þunglyndi eða kvíða. Þetta er alls konar. Þangað kemur fólk frá 18 ára og fram á miðjan aldur. Hringsjá býr þetta fólk undir nýja sókn í lífinu.

„Ég held að Hringsjá sé eitthvert best geymda leyndarmálið í bænum. Þetta er magnaður skóli og magnað umhverfi að vera í,“ segir Ingi Sævar Ingason að lokum og horfir björtum augum til framtíðarinnar.

Deildu þessu: