Hringsja Logo

Elísabet María

Elisa

„Ég datt út af vinnumarkaðnum árið 2009 þegar ég smitaðist af nautgripaberklum og varð óvinnufær út af lungnasjúkdómi sem ég fékk í kjölfarið. Í framhaldinu reyndi ég af og til að vinna en gekk það illa út af lungunum og læknirinn bað mig lengstra orða að vinna framvegis innivinnu, til dæmis á skrifstofu, en ekki í leikskóla eins og ég hafði gert í sextán ár áður en ég veiktist,“ segir Elísabet María Garðarsdóttir, leikskólaliði sem haslaði sér nýjan völl eftir að hún lauk námi hjá Hringsjá.
„Þar sem ég stóð á krossgötum með líf mitt sá ég auglýsingu um nám hjá Hringsjá sem er almennur skóli með öllum fögum. Ég dreif mig strax í heimsókn og fylltist vellíðan um leið og ég kom inn fyrir dyrnar. Ég sótti því um og fékk samþykki læknisins sem skrifaði upp á svo ég kæmist í námið. Það var mikið gæfuspor. Mér finnst það hafa bjargað lífi mínu að fara í Hringsjá eftir að hafa dottið úr mínu fagi eftir veikindin. Ég hafði áður verið í starfsendurhæfingu sem náði ekki að hjálpa mér þá, en í Hringsjá var önnur nálgun og allir svo ljúfir og góðir að manni fannst hreinlega að maður væri komin heim.“

Námið sem Elísabet María lauk hjá Hringsjá tekur þrjár annir.
„Meðan á náminu stóð lenti ég aftur í alvarlegum veikindum og þurfti að fresta einni önn út af spítalavist og endurhæfingu. Það reyndist sjálfsagt mál af hálfu Hringsjár og ríkti mikill skilningur á aðstæðum mínum. Ég mátti alltaf koma og vera með í tímum á meðan ég var í endurhæfingunni og mætti allsstaðar alúð og mikilli fagmennsku,“ greinir Elísabet frá.
Hún kveðst aldrei hafa verið sterk í stærðfræði.
„Ég hélt að slök stærðfræðikunnáttan stæði mér fyrir þrifum í náminu en það var nú aldeilis ekki. Í Hringsjá mætti ég mikinn skilningi á getu minni og í dag finnst mér stærðfræði leikur einn. Kennslan er einstaklingsmiðuð og þegar ég meðtók ekki aðferðir stærðfræðikennarans kom hann bara með aðra aðferð sem ég náði strax betur. Í Hringsjá er nefnilega komið til móts við þarfir og getustig hvers og eins með úrlausnum og aðferðum sem duga.“

Hjá Hringsjá starfa sálfræðingur, markþjálfar og félagsráðgjafar sem nemendur geta leitað til.
„Allsstaðar er mikið utanumhald um nemendur. Þar starfa englar í mannsmynd og ég verð ævinlega þakklát fyrir að hafa uppgötvað Hringsjá og lokið þaðan námi,“ segir Elísabet.
Í dag starfar hún sem móttökuritari á Húðlæknastöðinni.
„Þar nýtist námið mjög vel eins og tölvukunnáttan sem ég lærði hjá Hringsjá. Ég hef alltaf verið lesblind en les og svara nú tölvupóstum eins og ekkert sé. Ég nýt mín í vinnunni sem er einstaklega skemmtileg. Ég hafði áður verið föst í að leita að vinnu sem ég vissi að ég fengi ekki, og sennilega hefði ég aldrei sótt um þetta tiltekna starf. Það er Hringsjá að þakka að sjálfsmynd mín styrktist mikið og ég fékk trú á að gæti miklu meira en ég áður hélt,“ segir Elísabet.
Hún er þakklát fyrir tímann í Hringsjá.
„Námið var í heild sinni frábært og þetta var skemmtilegur tími. Í Hringsjá sækir breiður hópur fólks nám og þótt ég sé orðin fimmtug var ég í tímum með jafnöldrum dóttur minnar. Það breytti engu því okkur var mætt þar sem við stóðum, þrátt fyrir mismunandi bakgrunn. Þetta var ákaflega gefandi tímabil hjá mér og ég mæli af heilum hug með Hringsjá. Ekki síst fyrir þá sem standa á krossgötum og eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum eftir veikindi. Það sakar ekki að kynna sér námskeiðin, finna andann í húsinu og yndislegt viðmót starfsfólksins. Það er uppbyggjandi upplifun í sjálfu sér,“ segir Elísabet sem fór í áframhaldandi nám hjá NTV eftir útskrift frá Hringsjá.
„Þegar heimsfaraldurinn reið yfir ráðlagði lungnalæknirinn mér að taka námshlé. Í millitíðinni var mér svo boðin vinna á Húðlæknastöðinni og þar líður mér vel. Ég nýt hvers vinnudags og er alveg rosalega ánægð með lífið.“

Deildu þessu: