Hringsja Logo

Helga Sigurðardóttir

Þessi frásögn Helgu Sigurðardóttur, fyrrum nemanda Hringsjár, birtist í Fréttablaðinu 6. janúar 2017.

Starfið hjá Hringsjá snýst um að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og byggir helst á námi, kennslu, ráðgjöf og stuðningi. Námið er einstaklingsmiðað og hentar vel þeim sem hafa litla grunnmenntun eða eiga erfitt með nám. Helga segir að Hringsjá hafi gjörbreytt lífi sínu. „Þetta var eins og að fá lottóvinning,“ segir hún. Helga var búin að glíma við stoðkerfisvandamál og fæðingarþunglyndi í langan tíma þegar hún ákvað að taka líf sitt í gegn.

Mikið þunglyndi
„Ég þjáðist af miklu þunglyndi og vandamálum í stoðkerfi. Ég hafði ekki verið virk á vinnumarkaði í tíu ár. Einn daginn var ég að hjálpa syni mínum með stærðfræði og uppgötvaði að ég kunni ekki það sem hann var að gera. Það varð kveikjan að því að ég leitaði til Hringsjár en ég hafði heyrt um starfsemina frá vini mínum. Hann talaði fallega um starfsemina, vel væri hugsað um hvern og einn með frábærum árangri,“ segir Helga en fyrsta skrefið var að fara á Reykjalund í endurhæfingu. „Meðal annars var lögð áhersla á hugræna atferlismeðferð sem gerði mér mjög gott,“ segir hún.

Góð endurhæfing
„Eftir að hafa verið í endurhæfingu um tíma sóttu iðjuþjálfarar á Reykjalundi um fyrir mig hjá Hringsjá. Til að komast að þurfti maður að sýna virkilega mikinn áhuga á bata. Ég fór á tvö námskeið, annað í bókhaldi og hitt í tölvum. Mjög áríðandi var að stunda námið af heilum hug og mæta í alla tíma,“ útskýrir Helga.

„Þegar ég sóttist eftir að komast að hjá Hringsjá voru um eitt hundrað umsóknir. Rúmlega tuttugu komust inn svo þetta var algjör lóttóvinningur fyrir mig,“ segir hún.

Lesblinda uppgötvaðist
Helga fór í nám hjá Hringsjá sem gaf einingar til áframhaldandi náms. „Námið byggir á hraða sem hentar hverjum og einum. Þarna uppgötvaðist að ég væri lesblind sem ég hafði enga hugmynd um. Allt í einu var ég ekki heimsk eins og ég hafði alltaf talið mig vera. Ég átti mjög erfitt með að læra á sínum tíma. Það var mér um megn að þurfa að fara upp að töflu og lesa upphátt, eins og tíðkaðist þá. Það var mikil niðurlæging þegar kennarinn kallaði mig upp enda er þetta eitthvað það versta sem hendir þá sem eru lesblindir,“ segir Helga.

„Það var hrikalegt að lesa upp fyrir bekkinn og sjá bara annað hvert orð. Ég féll í stærðfræði og íslensku og flosnaði síðan upp úr skóla. Ég fékk þau skilaboð frá kennurum að ég væri tossi,“ segir Helga.

Það var því mikil blessun fyrir hana að fá greiningu og breytti öllu fyrir hana í náminu.

Vildi ekki vera föst í örorku
„Eftir að ég byrjaði í Hringsjá fékk ég níu og tíu í stærðfræði og átta í íslensku. Í dag get ég hjálpað börnum mínum með heimalærdóminn. Það er góð tilfinning,“ rifjar hún upp. Námið var þrjár annir og Helga lauk því með glans. Hjá Hringsjá fékk hún einnig aðstoð við hreyfingu í líkamsræktarstöð Sjálfsbjargar. „Ég var mjög kvíðin þegar ég byrjaði hjá Hringsjá en það breyttist fljótt. Ég hefði aldrei getað staðið upp fyrir framan fólk áður. Núna er ég í stjórn Félags flogaveikra en ég greindist með flogaveiki um það leyti sem ég byrjaði í Hringsjá,“ segir hún.

Lyfjatæknir í dag
Eftir að Helga lauk námi hjá Hringsjá fór hún í lyfjatækninám í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Núna starfar hún sem lyfjatæknir á Landspítalanum. „Mig langaði aldrei að sitja föst í örorku,“ segir hún. „Fór strax að vinna eftir námið og líkar það mjög vel. Ég kalla Hringsjá lífsbjörgina mína. Eftir að ég byrjaði hjá Hringsjá varð einhvers konar nýtt upphaf í lífi mínu. Bara að fara út á meðal fólks og eiga við það samskipti hefur ótrúlega góð áhrif á mann. Ég get því mælt með Hringsjá fyrir alla þá sem þrá að komast aftur út í lífið og uppgötva að mennt er máttur.“

Deildu þessu: