Hringsja Logo

Maríana Carmen

Þessi frásögn Maríönu Carmen, fyrrum nemanda Hringsjár, birtist í Fréttatímanum 22. maí 2015.

„Góður skóli“, segir Mariana Carmen Sineavschi, sem í útskrifaðist frá Hringsjá náms- og starfsendurhæfingu vorið 2015 eftir þriggja anna nám.

„Ég mæli þúsund prósent með skólanum. Þetta er ekki bara besti skóli á Íslandi heldur í heiminum.

Þegar ég byrjaði í Hringsjá fannst mér eins og ég væri komin heim. Þar eru allir svo vinalegir, persónulegir, kurteisir og hjálplegir. Hver og einn fær góðan stuðning og námið er mjög einstaklingsmiðað. Stuðningurinn miðar ekki aðeins að náminu heldur fékk ég þar bæði sálrænan og félagslegan stuðning,“ segir Mariana ánægð.

Í Hringsjá lærði Mariana meðal annars félagsfræði, ensku, stærðfræði, bókhald, íslensku, heimspeki, sálfræði, upplýsingatækni og námstækni.

„Mig langaði að klára stúdentspróf en ég var ekki tilbúin að fara í almennan skóla. Ég var ekki vel á mig komin andlega og líkamlega og fór því á Reykjalund. Þar var mér bent á að fara í Hringsjá og Virk starfsendurhæfingarsjóður greiddi námið fyrir mig. Mér var sagt að Hringsjá væri góður skóli, bæði fyrir þá sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt með að læra og fyrir útlendinga en ég er frá Rúmeníu og hef búið á Íslandi í tæp tólf ár. Það kom svo sannarlega í ljós að skólinn var góður því ég er næstum döpur yfir að vera að útskrifast úr Hringsjá.“

Mariana ætlar þó ekki að kveðja Hringsjá alveg og mun fá stuðning þaðan næsta haust til að stunda skrifstofunám hjá NTV.

„Ég var í tölvubókhaldi í Hringsjá á síðustu önn og er nú á framhaldsnámskeiði í tölvubókhaldi hjá NTV. Svo langar mig í löggilt bókaranám seinna. Draumurinn er að klára stúdentspróf en það er erfitt þar sem fólk eldra en 25 ára getur ekki lengur farið í framhaldsskóla. Það ætti bara að vera hægt að taka stúdentsprófin í Hringsjá,“ segir hún og brosir.

Deildu þessu: