Þessi frásögn Þorgerðar Ævarsdóttur og Gunnars Sölva Theodórssonar, fyrrum nemenda Hringsjár, birtist í Fréttablaðinu 5. maí 2017.
„Ég hafði ekki verið í skóla í tvö ár og treysti mér ekki strax í venjulegan framhaldsskóla. Mér hafði alltaf gengið illa að læra, sérstaklega stærðfræði. Ég var áður í Fjölbraut í Garðabæ en þjáðist af félagsfælni, fór að drekka mikið, hætti í vinnu og datt út úr skólanum,“ útskýrir Þorgerður Ævarsdóttir en hún útskrifaðist frá Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu, þann 18. maí 2017.
Hjá Hringsjá hafi hún fundið stuðninginn og utanumhaldið sem hún þurfti til að ná sér á strik.
„Þetta bjargaði mér. Að komast í rútínu og hafa eitthvað að gera á hverjum degi. Annars var ég bara sofandi heima allan daginn og ekki fær til þess að gera neitt,“ segir Þorgerður.
„Ég heyrði af Hringsjá hjá vinkonu minni sem hafði farið á kynningu. Ég talaði við námsráðgjafa og fór á námskeið. Svo komst ég inn. Ég náði að byggja mig upp og sjálfstraustið líka. Námið er mjög einstaklingsmiðað og sniðið að getu hvers og eins. Til dæmis geta nemendur verið að vinna með mismunandi bækur. Í framhaldsskóla þurfa allir að vera á sama stað á sama tíma. Það reyndist mér erfitt en í Hringsjá var mér tekið eins og ég er og þar fékk ég auka aðstoð við það sem þurfti,“ segir Þorgerður.
Hún stefnir ótrauð á frekara nám. „Ég er búin að sækja um í Fjölbraut í Ármúla og mig langar að klára stúdentinn. Ég verð áfram í eftirfylgni hjá Hringsjá og svo langar mig í háskóla. Ég hef áhuga á að læra sálfræði.“
Sjálfstraustið óx
Gunnar Sölvi Theodórsson tekur undir með Þorgerði, stuðningurinn hafi verið ómetanlegur hjá Hringsjá og hvetjandi andrúmsloftið í skólanum hafi byggt upp sjálfstraustið.
„Ég byrjaði og hætti í menntaskóla ansi oft. Ég var þjakaður af mikilli félagsfælni og kvíða. Ég fór eingöngu í menntaskóla af því að allir jafnaldrar mínir gerðu það, ég vissi sjálfur ekkert hvað mig langaði til að gera,“ segir Gunnar. Honum var ráðlagt að læra iðn og reyndi fyrir sér í Borgarholtsskóla.
„Ég var svo kvíðinn að ég þorði ekki upp í matsal að borða, bara það að vera inni í byggingunni var kvöl og pína. Svo liðu árin í neyslu og rugli. Mig langaði alltaf að halda áfram námi en náði mér ekki á strik fyrr en eftir meðferð á Vogi. Eftir hana var ég í eitt og hálft ár á áfangaheimilinu Draumasetrinu þar sem félagsráðgjafi sagði mér af Hringsjá.“
Gunnar segir Hringsjá frábæran vettvang til að byggja sig upp. Umhverfið rólegt og þar mæti fólk skilningi. „Fólk veit að allir sem eru hér hafa sínar ástæður. Hver og einn er að fást við sitt og fólk sýnir samkennd og hlýhug. Maður fær mikinn stuðning frá kennurunum og námið er einstaklingsmiðað. Hér hefur maður einnig aðgang að námsráðgjafa, félagsráðgjafa og sálfræðingi á staðnum. Þegar sjálfstraustið var komið fann ég fljótlega að námið sem slíkt vafðist ekki fyrir mér. Ég gat rumpað verkefnum af hratt og fékk þá að bæta við mig. Mér gengur vel og stefnan er að fara í Háskólabrúna. Ég gæti þurft að sækja einhverjar einingar í fjarnámi en 25 ára reglan setur manni dálítið stólinn fyrir dyrnar.“