Þetta viðtal við Kristján, fyrrum nemanda Hringsjár, birtist í Fréttatímanum 16. maí 2014.
„Þetta er búið að vera algjör snilld“, segir Kristján Jónsson sem í vikunni útskrifaðist frá Hringsjá – náms- og starfsendurhæfingu eftir þriggja anna nám.
„Mér finnst ég hafa þroskast mikið á þessum mánuðum og hér hafa góðir hlutir gerst. Ég kom boginn inn en gekk teinréttur út,“ segir Kristján.
Hann verður fimmtugur í næsta mánuði og sat síðast á skólabekk árið 1991. „Ég á mér neyslusögu, var lengi í brennivíni og í fíkniefnum í seinni tíð. Nú er ég búinn að vera edrú í fjögur ár eftir að hafa farið í meðferð hjá SÁÁ.“
Eftir að Kristján lauk meðferð lá leið hans í Grettistak þar sem félagsráðgjafar á vegum borgarinnar hjálpa fólki við endurhæfingu. Kristjáni gekk hins vegar illa að ná sambandi við sinn ráðgjafa sem hvatti hann til að senda sér bara tölvupóst sem hún myndi svara um hæl. „Það var hlutur sem ég kunni bara alls ekki á og ég sagði henni það. Þá benti hún mér á að rétt væri að ég færi á tölvunámskeið inni í Hringsjá sem ég og gerði. Mér fannst svo gaman að vera þar að ég fór í kjölfarið á minnisnámskeið þar. Og eftir þessi tvö námskeið var ég farinn að átta mig á því að ég gæti alveg verið í skóla. Það hafði lengi verið draumur hjá mér en ég hafði ekki þorað það, mér fannst ég ekki eiga heima þar. Ég sá að ég gat alveg lært.“
Samhliða náminu í Hringsjá hefur Kristján verið að læra í Tækniskólanum. Þar er hann að ljúka sveinsprófi í málaraiðn. „Ég hef lokið 33 einingum í Hringsjá og réttindin eru handan við hornið í Tækniskólanum. Og það eru margir aðrir jákvæðir hlutir í gangi. Fimmtán ára dóttir mín býr til dæmis hjá mér í dag og ég er búinn að ráða mig í vinnu,“ segir hann.
Kristján kveðst mæla með náminu í Hringsjá. „Þetta er eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Maður kemur syngjandi þaðan út. Þetta er einstaklingsmiðað nám og þú ert ekki í samkeppni við einn eða neinn. Ef þú ert eitthvað á eftir hinum þá ertu samt í góðum málum. Þú færð þá aðstoð sem þú þarft.“