Í áfanganum kynnast nemendur höfuðþáttum norrænnar goðafræði, læra að þekkja helstu goð og hlutverk þeirra og kynnast sígildum goðsögnum í norrænni goðafræði. Nemendur eru þjálfaðir í gerð heimildaritgerða og læra um frágang ritaðs máls. Fjallað er um sögu tungumálsins, uppruna þess og þróun. Lesin er ein íslensk skáldsaga og verkefni unnin í tengslum við hana og nemendur eru þjálfaðir í notkun bókmenntahugtaka.
Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:
- helstu höfuðþáttum norrænnar goðafræði og heimsmynd hennar
- hugtökum sem notuð eru við ritgerðasmíð og notkun heimilda í ritun
- málfræðihugtökum og ritreglum sem nýtast í tal- og ritmáli
- hugtökum í málsögu og hvernig málið hefur þróast frá alda öðli til okkar daga
- hugtökum sem nýtast við bókmenntaumfjöllun
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- nýta málfræðihugtök og málfræðilegar upplýsingar til að efla eigin málfærni
- fjalla skriflega og munnlega um afmarkaða þætti námsefnisins á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt
- draga saman og nýta upplýsingar úr ýmis konar heimildum og flétta saman við eigin viðhorf og ályktanir á heiðarlegan hátt
- lesa sér til gagns og gamans nytjatexta og bókmenntaverk frá ýmsum tímum og fjalla um inntak þeirra
- leita sér upplýsinga um íslenskt mál og málstefnu
Nemandi skal geta nýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- vinna að skapandi verkefnum í tengslum við námsefnið
- beita skýru, lýtalausu og blæbrigðaríku máli í ræðu og riti
- leita sér heimilda og upplýsinga um tiltekið efni og vinna úr þeim á sjálfstæðan og heiðarlegan hátt
- taka þátt í málefnalegum umræðum, byggja upp skýra röksemdafærslu, tjá afstöðu og efasemdir um efnið og komast að niðurstöðu
- dýpka skilning sinn á mál- og menningarsögu
Námsmat:
Leiðsagnarmat. Fjölbreytt verkefni metin jafnt og þétt yfir önnina. Áhersla á umsagnir sem leiða nemandann áfram. Engin skrifleg lokapróf.