Hringsja Logo

Bókmenntir, málnotkun og ritun – ÍSLE2MB05

Lögð er áhersla á að nemendur treysti kunnáttu sína á öllum sviðum lestrar. Nemendur lesa fjölbreytta bókmenntatexta og smásögur og skila umsögn um kjörbók. Nemendur læra grunnatriði í bókmenntafræði og læra að beita grunnhugtökum í henni. Lögð er áhersla á grunnþætti málfræði og stafsetningu og málnotkun. Nemendur kynnast bragfræði og stílbrögðum í ljóðum. Nemendur fá innsýn í hugmyndaheim sögualdar með því að lesa eina Íslendingasögu.

Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:

  • mikilvægi góðrar lestrarkunnáttu
  • beygingareinkennum og greiningu í orðflokka
  • helstu stafsetningareglum
  • uppsetningu, byggingu og framsetningu stuttra ritsmíða
  • helstu undirstöðuhugtökum bókmennta
  • grunnatriðum í bragfræði
  • mikilvægi góðra vinnubragða

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • lesa fjölbreytta texta og endursegja efni
  • að nýta málfræðihugtök og málfræðilegar upplýsingar til þess að efla eigin málfærni
  • nota helstu bókmenntahugtök í skriflegri og munnlegri umfjöllun um bókmenntir
  • byggja upp og ganga frá stuttum ritsmíðum
  • beita bragfræðihugtökum
  • setja verkefni skýrt og skipulega fram

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • auka sjálfstraust sitt og trú á eigin málfærni í ræðu og riti
  • lesa bókmenntaverk og aðra texta sér til gagns og gamans
  • útskýra einkenni bundins máls og nota valin bókmenntahugtök
  • nýta orðaforða, beita málinu og rita rétt
  • semja stutta texta af ýmsu tagi með viðeigandi málsniði
  • vanda vinnubrögð

Námsmat:
Leiðsagnarmat. Fjölbreytt verkefni metin jafnt og þétt yfir önnina. Áhersla á umsagnir sem leiða nemandann áfram. Engin skrifleg lokapróf.