Hringsja Logo

Almenn félagsfræði (FÉLA2AA05)

Almenn félagsfræði

Í þessum byrjunaráfanga er fjallað um grunneiningar samfélagsins og þær skoðaðar frá sjónarhorni félagsvísinda. Fjallað er um samfélagið í ljósi þeirra áhrifa sem það hefur á einstaklinginn og líf hans. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist þekkingu á umhverfi sínu nær og fjær svo að þeir verði færir um að taka virkan þátt í samfélagslegum umræðum og mynda sér skoðanir á meðvitaðan og gagnrýninn hátt. Nemendur kynna sér félagslega þætti sem stýra hegðun og athöfnum einstaklingsins og keppt er að því að nemendur öðlist skilning á uppbyggingu og skipulagi eigin samfélags og annarra. Meginmarkmið áfangans er að nemendur öðlist undirstöðuþekkingu á grunnþáttum íslenska samfélagsins og geti borið það saman við nokkur önnur samfélög nær og fjær. Sömuleiðis að nemandinn átti sig á því hvernig samfélagið hefur áhrif á hann og hvernig hann getur haft áhrif á samfélagið. Efnið er kennt með fyrirlestrum, umræðum, verkefnavinnu, leit að upplýsingum á netinu og geisladiskum, sem og samskiptum við aðra á netinu. Lögð er áhersla á að nemendur sýni frumkvæði og sjálfstæði í umræðum. Fyrir utan hefðbundin kennslugögn er ætlast til að nemendur geti nýtt sér netið við upplýsingaöflun: þeir eiga að geta fundið gögn og unnið með þau.

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á

  • félagsvísindum sem fræðigrein og helstu vinnu-og rannsóknaraðferðum þeirra
  • helstu félagsmótunaraðilunum og hvernig þeir geta mótað einstaklinginn
  • helstu trúarbrögðum heims, hlutverkum og samfélagslegu gildi þeirra
  • orsökum kynþáttafordóma og annarrar mismununar
  • helstu atriðum sem tengjast íslenska stjórnkerfinu og störfum Alþingis
  • helstu alþjóðasamtökum í heiminum á borð við Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að

  • greina grunnþætti menningar og mikilvægi hennar fyrir einstaklinginn og samfélagið
  • nota netið sem hjálpartæki við að afla sér þekkingar um félagsfræðileg viðfangsefni
  • lýsa mismunandi samfélagsgerðum
  • lýsa jákvæðum hlutverkum fjölskyldunnar en einnig vandamálum í umhverfi hennar
  • taka þátt í umræðum um samfélagsleg málefni og mynda sér skoðanir sem byggjast á gagnrýninni hugsun
  • bera saman fjölskyldur og fjölskyldugerðir, fjalla um hlutverk þeirra fyrr og nú og þekkja til helstu réttinda og skyldna sem fylgja mismunandi sambúðarformi

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að

  • safna saman upplýsingum um eigið samfélag og annarra og geta greint og rökstutt menningarlegan mun
  • beita öguðum vinnubrögðum, taka ábyrgð á eigin námi og geta unnið í samvinnu við aðra
  • horfa á samfélagið með gagnrýnum augum, jafnt á jákvæðan sem neikvæðan hátt
  • vera meðvitaður um uppbyggingu íslenska stjórnkerfisins og geta þannig tekið þátt í umræðum um það, bæði kosti þess og galla

Námsmat:
Lokapróf 80%
Ýmis verkefni 20%

Námsefni:
Félagsfræði – einstaklingur og samfélag eftir Garðar Gíslason, útgáfuár 2008.
Útgefandi: Mál og menning